Zoë Martlew flytur kabarettinn Revue Z, frumflutningur + vinnustofa

„ljóska, selló, dýna og mikið af stafrænum hljóðum…“

– Miðvikudagskvöldið 14. maí í Hafnarhúsinu kl: 20 – Revue Z, einnar-konu-söngleikjakabarett með Zoë Martlew – ókeypis inn

– Miðvikudagskvöldið 21. maí í Hafnarhúsinu kl: 20 – Zoë Martlew frumflytur verkið Makhana eftir Gunnar Karel Másson, hljóðskáld og Maríu Dalberg, vídeóskáld – ókeypis inn

/

Jaðarber kynnir komu framúrstefnu-kabarettlistakonunnar Zoë Martlew til landsins. Zoë Martlew er sellóleikari, tónskáld og alhliða listflytjandi og mun koma fram á tvennum tónleikum hjá Jaðarberi auk þess að halda vinnustofu í spuna og leikhúsi, miðluðu með tónlist.

Miðvikudagskvöldið 14. maí mun Zoë flytja einleikinn Revue Z, sem hún hefur flutt við góðan orðstír um allt Bretland og á tónlistarhátíðum víða um heim. Í verkinu tvinnar hún saman eigin tónlist og vel þekktum slögurum sem hún velur út frá hverjum tónleikastað fyrir sig. Inn í þetta fléttast svo spuni, kynferði, húmor og alls kyns útúrdúrar. Frá því hún kom fyrst fram með sýninguna hefur hún unnið með hinum rómaða leikstjóra Toby Sedgwick; verðlaunahafa Laurence Olivier verðlaunanna og John Baxter, deildarstjóra LAMDA skólans.

Miðvikudagskvöldið 21. maí mun Zoë frumflytja verkið Makhana sem Gunnar Karel Másson, hljóðskáld og María Dalberg, vídeóskáld hafa verið að vinna að síðan í janúar á þessu ári og er sérstaklega samið með hana í huga. Í verkinu munu áhorfendur ferðast um litbrigði hljóðsins í draumkenndum leiðslum fljótandi hugsana. Verkið er heildstæð upplifun þar sem mynd er ekki hljóðsett og hljóð ekki myndskreytt, heldur er hljóð og mynd eitt og hið sama.

Dagana 16.-18. maí heldur Zoë Martlew, ásamt tónlistarkonunum Þórunni Grétu Sigurðardóttur og Kristínu Þóru Haraldsdóttur, opna vinnustofu um listgjörninga á mörkum leiklistar og tónlistar.
Zoë mun þar fjalla um spuna, með eða án hljóðfæra, m.a. út frá prósaverkum Aperghis. Þá mun hún kynna þær aðferðir sem hún notast við í Revue Z, auk þess að tæpa á aðferðum tónskálda á borð við Kagel, Foss, Cardew, Cage og Brown, skoða aleatórík (tilviljanir) í verkum eftir Lutoslawski, Maderna ofl.

Þórunn Gréta og Kristín Þóra munu greina þá möguleika sem felast í að má út mörkin á milli tónlistar og leiklistar á sviði og aðferðir til þess að gera báðum þáttum jafnhátt undir höfði. Þá verða einnig skoðaðar aðferðir til að skrifa raddskrár fyrir slík verk með því að vísa til verka á borð við Staatstheater eftir Kagel auk kynningar á fornum og framandi tónleikhúshefðum, „object-theatre“ og fleiru.

Vinnustofan er ókeypis og öllum opin. Hámarksfjöldi þátttakenda er 20 manns og tekið er við skráningum á netfangið jadarber@jadarber.is

Tímar vinnustofunnar eru sem hér segir:

Fös 16. maí 14:30-16:30
Lau 17. maí 10:30-14:30
Sun 18. maí 11:30-16:30


Nánar um Zoë Martlew:
Zoë Martlew kemur reglulega fram sem einleikari um heim allan auk þess að koma fram með fremstu samtímatónlistarhópum Evrópu. Má þar nefna Ensemble Modern, London Sinfonietta, Birmingham Contemporary Music Group auk spunahópa, raftónlistarfólks og margra hinna þekktari popp- og rokktónlistarmanna eins og Sir Paul McCartney, Plaid og Radiohead. Hún vinnur mikið í leikhúsi, bæði sem tónskáld og flytjandi. Má þar á meðal annars nefna samstarf við dansarann og danshöfundinn Antonia Franceschi og Ballet Black, Konunglegu Óperuna í London og framúrstefnu-dansleikhúshópinn The Bakery sem er hugarfóstur dansarans Richard Siegal. Árið 2012 vann hún Katherine McGillervray Award til þess að þróa eigið tónlistarleikhúsverk, en verndari þeirra verðlauna er Yo-Yo-Ma. Af nýlegum verkefnum má nefna spunatónlist við fyrstu verk Alfreds Hitchcock í samvinnu við Mira Calix og einleikstónleika í Svarta demantinum í Kaupmannahöfn. Útgfáfufyrirtækið Schott hefur gefið út þrjú af sellóverkum hennar. Zoë var dómari í sjónvarpsþættinum Maestro á BBC2 og Young Musician of the Year og kemur reglulega fram sem kynnir fyrir sjónvarp BBC Proms, Radio 3 og BBC2 Newsnight Review og tók sæti sem dómari fyrir Bretlands hönd árið 2009 í Eurovision; Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

http://zoemartlew.com/

“Zoë Martlew set a pace that nearly set the floor on fire.” INDEPENDENT ON SUNDAY

“[…] the astonishing Zoë Martlew (billed as ‘cellist/performer’, a virtuoso show of understatement) in her spectacular ‘Z Unleashed. […] Unhinged, uncensored, underwired!’ An unforgettable experience” SEEN & HEARD INTERNATIONAL

“Zoë Martlew proves herself an accomplished actress, assuming various characterisations, some of them hilarious, and delivering text with aplomb.” SEEN & HEARD

Nánar um Þórunni Grétu Sigurðardóttur:
Þórunn Gréta Sigurðardóttir hlaut grunnmenntun í píanóleik við tónlistarskólana í Fellahreppi og á Egilsstöðum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hún stundaði píanó- og tónsmíðanám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi í tónsmíðum árið 2008, B.A. gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og M.Mus. gráðu frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg árið 2014. Hún hefur sótt fjölda masterklassa og námskeiða í píanóleik, tónsmíðum og spuna. Hún hefur fyrst og fremst samið kammertónlist fyrir hefðbundin hljóðfæri en einnig tónlist við innsetningar, vídeóverk og hreyfimyndir í samstarfi við íslenska hönnuði og ljóðskáld.

Nánar um Kristínu Þóru Haraldsdóttur:
Kristín Þóra Haraldsdóttir víóluleikari kemur víða við í nálgun sinni á tónlist og sinnir jöfnum höndum hlutverkum flytjanda, tónskálds og spunaleikara. Hún nam víóluleik við Listaháskóla Íslands, söng við Söngskólann í Reykjavík og lauk árið 2011 mastersnámi í flutningi, tónsmíðum og samtengdum miðlum við California Institute of the Arts.
Kristín hefur á undanförnum árum leikið með ýmsum hópum og hljómsveitum á Íslandi og í Kaliforníu. Má þar nefna New Century Players, Dog Star Orchestra, Mógil, Fengjastrút og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Sem spunaleikari hefur hún komið fram á tónlistarhátíðum á borð við Tectonics, bæði á Íslandi og í Glasgow, Sláturtíð og Ruhr Triennale og á upptökum hjá m.a. Innova Records og Úsland útgáfu. Kristín er virk í íslenskri jaðartónlistarsenu og kemur reglulega fram á tónleikum með ýmsum listamönnum á hinum nýja tónleikastað Mengi í Reykjavík.
Verk Kristínar hafa að undanförnu einkennst af leiðslu, einfaldleika og gagnsæji en stundum bregður við húmor og leyndri ádeilu, þá notast hún notast jafnt við hljóðfæri, rými, líkama, umhverfis- og rafhljóð.