Svefnherbergi/Bedroom

Tónlistarviðburður á Jaðarberi miðvikudagskvöldið 19. mars 2014 kl: 20.00 í Hafnarhúsinu.

Halla Steinunn Stefánsdóttir og Berglind María Tómasdóttir flytja verk sem hverfast um vitund og undirdjúp, svefnfarir og handanheima. Sérstakur gestur: Sigurbjörg Þrastardóttir, rithöfundur.

Verk eftir Þuríði Jónsdóttur, Nicholas Deyoe, Þorkel Sigurbjörnsson, Clinton McCallum, Hildi Guðnadóttur, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Önnu Þorvaldsdóttur, Höllu Steinunni Stefánsdóttur og Berglindi Maríu Tómasdóttur.

//

Concert Wednesday March 19 2014 at 8 pm in Hafnarhúsid.

Halla Steinunn Stefánsdóttir, violin and Berglind María Tómasdóttir, flutes and “hrokkur” come together and perform a program around the motives consciousness, abyss, dreaming and the other world. Special guest: Sigurbjörg Thrastardóttir, writer.

Works by Thurídur Jónsdóttir, Nicholas Deyoe, Thorkell Sigurbjörnsson, Clinton McCallum, Hildur Gudnadóttir, María Huld Markan Sigfúsdóttir, Anna Thorvaldsdóttir, Halla Steinunn Stefánsdóttir and Berglind María Tómasdóttir.
_______________
Efnisskrá//Program:

Halla Steinunn Stefánsdóttir: Dreymir
hljóðrás

Þuríður Jónsdóttir: INNI — musica da camera
fiðla, hljóðrás

Nicholas Deyoe: things written in the snow
2. beneath a fresh layer
bassaflauta

Clinton McCallum: Dead Songs — Some Way
fiðla, rödd, hrokkur

María Huld Markan Sigfúsdóttir: Sofandi pendúll
fiðla, hljóðrás

Clinton McCallum: Dead Songs — Only
fiðla, rödd, hrokkur

Þorkell Sigurbjörnsson: Kalais
flauta

Hildur Guðnadóttir: 2 hringir
fiðla, rödd

Anna Þorvaldsdóttir: Ethereality
bassaflauta, hljóðrás

Berglind María Tómasdóttir: Interior
videó

***

Halla Steinunn Stefánsdóttir: fiðla, rödd
Berglind María Tómasdóttir: flauta, rödd, hrokkur

Þakkir: Atli Jósefsson, Erla Björnsdóttir, Guðlaug Friðgeirsdóttir, Frank Aarnink, Úlfhildur Eysteinsdóttir, Bjargey Ólafsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir.

Tónleikarnir eru styrktir af Reykjavíkurborg // The project is supported by the city of Reykjavík

Um verkin:
Dreymir
Verkið var unnið veturinn 2013-14 og byggir á samræðum við Erlu Björnsdóttur, Atla Jósefsson og Guðlaugu Friðgeirsdóttur sem öll hafa unnið að svefnrannsóknum. Hægt verður að nálgast verkið í nokkrar vikur á https://soundcloud.com/nordicaffect

INNI — musica da camera
Fíngerðir og flöktandi yfirtónar barokkfiðlunnar veltast um hljóðvoðir þar sem heyrist í kornabarni. Gömul vögguvísa leynist þarna einhvers staðar. Verkið var skrifað fyrir Höllu Steinunni Stefánsdóttur með styrk frá Hlaðvarpanum 2012. Þ.J.

things written in the snow — 2. beneath a fresh layer
Verkið var skrifað fyrir Berglindi Maríu Tómasdóttur og var frumflutt í febrúar 2012 í San Diego. Nicholas Deyoe er stjórnandi, gítarleikari og tónskáld með doktorsgráðu í tónsmíðum frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Hann er fæddur í Colorado en er búsettur í Los Angeles. Verkið er ein af mörgum vögguvísum sem hann hefur samið á undanförnum árum.

Dead Songs
Verkin eru fengin úr lagaseríu sem Clinton McCallum samdi á vetrarmánuðum 2013-14 fyrir Berglindi Maríu og Höllu Steinunni. Clint er bandarískt tónskáld, tónlistarmaður og ljóðskáld frá Colorado. Hann er með doktorsgráðu frá Kaliforníuháskóla í San Diego þar sem hann er búsettur. Meðal áhrifavalda á listsköpun hans eru vestræn framúrstefna, amerísk gjörningalist 8. áratugarins, hryllingsmyndir, diskó og tónlist Bachs.

Sofandi pendúll var saminn á vetrarmánuðum 2010 að beiðni Höllu Steinunnar Stefánsdóttur. Verkið er samið fyrir barokkfiðlu og hljóðsnældu þar sem unnin hljóð barokkfiðlunnar sjálfrar og bjallna mynda samspil við einleiksfiðluna. Einleiksfiðlan er hugsuð sem flæðandi partur, bæði sjálfstæður og háður meðspilinu — stundum hikandi og óreglulegur, stundum markviss og jarðbundinn. M.H.M.S.

Kalais var sonur Boreasar, norðanvindsins í grískri goðafræði. Hann var mikill hljóðfæraleikari. Á gömlu Íslandskorti er hann sýndur sem lútuleikari sem með leik sínum lokkar fiska og furðuverur upp úr hafinu. Þetta er áreiðanlega rangt; sonur norðanvindsins hlyti að hafa leikið á blásturshljóðfæri. Þ.S.

2 hringir
Samið fyrir Höllu Steinunni árið 2013. Verkið er hluti af áframhaldandi skoðun á sambandi hljóðfæraleikara við hljóðfæri sitt, þar sem ein manneskja verður tveir tóngjafar. H.G.

Ethereality var samið árið 2009.

Interior
Altus AZUMINO JAPAN. 6583. 1607.
—————–

Berglind María Tómasdóttir (f. 1973) er flautuleikari sem vinnur þvert á marga miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir og erkitýpur. Hún hefur unnið talsvert með vídeólist, leikhús og tónlist í performönsum sínum svo sem í hennar rómaða I’m an Island. Berglind María hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík, Bang on a Can Marathon í Yerba Buena Center for the Arts í San Francisco, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, CMMAS tölvutónlistarsetrinu í Morelia í Mexíkó, Myrkum músíkdögum, MSPS New Music Festival í Shreveport, Louisiana, REDCAT í Los Angeles og Nordic Music Days svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Hún lauk nýverið doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego.

Halla Steinunn Stefánsdóttir barokkfiðluleikari hefur leikið allt frá danstónlist 17. aldar til hinnar spennandi raftónsköpunar okkar tíma. Hún hefur komið fram í Bandaríkjunum og víðs vegar í Evrópu. Halla Steinunn er stofnandi og listrænn stjórnandi kammerhópsins Nordic Affect sem er í ár tónlistarhópur Reykjavíkur. Hópurinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2013 og er einnig tilnefndur til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem flytjandi ársins innan sígildrar og samtímatónlistar. Halla Steinunn lauk framhaldsnámi í fiðluleik frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium og P.D. gráðu í barokkfiðluleik frá Early Music Institute við Indiana University School of Music. Hún hefur frá upphafi ferils síns lagt áherslu á að panta og frumflytja tónsmíðar og hafa tvö verkanna; Händelusive eftir Huga Guðmundsson, samið fyrir Nordic Affect og Sofandi pendúll eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur skrifað fyrir barokkfiðlu og rafhljóð verið valin í heiðursflokk Alþjóðlega tónskáldaþingsins. Halla Steinunn hefur hljóðritað fyrir Samband Evrópskra Útvarpsstöðva og Ríkisútvarpið. Leik hennar er einnig að finna á geisladiskum hjá Brilliant Classics, Smekkleysu og Musmap. Hafa útgáfurnar hlotið Íslensku Tónlistarverðlaunin, Kraumsverðlaunin og viðurkenningu í hinu virta tónlistarblaði Gramophone ásamt lofsamlegum dómum í tónlistarblöðunum Classical Music, BBC Music Magazine og Fanfare Magazine. Halla Steinunn leggur nú lokahönd á geisladisk sem á er að finna verk eftir íslensk kventónskáld sem hún hefur pantað og flutt með Nordic Affect. Halla Steinunn hefur jafnframt komið að fyrirlestrarhaldi, ritað greinar fyrir erlend fagtímarit og tónsett sjónvarpsþætti. Hún er þekkt fyrir tónlistarþætti sína til margra ára á Rás 1 og hefur kennt barokkfiðluleik og hljóðfærabókmenntir við Listaháskóla Íslands.

http://berglindtomasdottir.com/

http://nordicaffect.com/