Berjasulta eða Strike/Illuminate

Strike/Illuminate – NorthArc slagverkstríóið – Tónleikar sunnudaginn 18. mars 2012 kl: 20 í Hafnarhúsinu – Aðgangur ókeypis.

NorthArc slagverkstríóið er á debut tónleikaferðalagi um Skandinavíu um þessar mundir sem kallast Strike/Illuminate. Þau munu halda sex tónleika í fjórum löndum, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og hefja ferðalagið á íslandi.

Á tónleikum Jaðarbers leika þau Dressur, meistaraverk Mauricios Kagel fyrir súrealískt tónlistarleikhús, auk þess sem þau munu frumflytja þrjú ný verk á tónleikunum þar sem tónsmíðarnar notast við ljós og lýsingu á einhvern hátt. Þau munu frumflytja splunkunýtt verk Önnu Þorvaldsdóttur, Aura, sem samið var fyrir tríóið og einnig ný verk eftir bandaríska tónskáldið Carolyn Chen og Antoniu Barnett-McIntosh frá Nýja Sjálandi.

Tríóið leggur áherslu á samtvinnun listgreina með því að leggja rækt við að panta ný verk og gera tilraunir með tónleikaformið. Meðlimir NorthArc eru búsettir í Noregi, en það eru þau Sindre Sætre, Vidar Thorbjørnsen og Jennifer Torrence.

Það er Jaðarberi sérstök ánægja að fá þessa gesti í heimsókn og óhætt að segja að slagverkstónleikar eru skemmtileg tíðindi á Íslandi. Sérlega skemmtilegt er að að geta boðið upp á þrjá frumflutninga með hópnum!

Meira á www.northarc.no