John Cage – Stórafmæli

Í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu tónskáldsins John Cage, en nánar tiltekið fæddist John Milton Cage Jr. 5. september árið 1912. Alls kyns tónleikar og viðburðir til að heiðra minningu John Cage verða haldnir á árinu víðsvegar um heiminn. Jaðarberið vill gjarnan vera með í þessari bylgju því Íslandsvinurinn John Cage hefur haft mikil áhrif á listasögu hér eins og annars staðar. Cage var heimspekingur, ljóðskáld, myndlistarmaður og sveppatínslumaður. Hann var leiðandi í avant-garde stefnu eftirstríðsáranna og brautryðjandi í elektrónískri og tilviljunarkenndri tónlist. Sumir myndu jafnvel halda því fram að Cage sé einhver áhrifamesti listamaður 20. aldarinnar, en dæmi hver fyrir sig.

Á afmælistónleikunum sem haldnir verða miðvikudagskvöldið 15. febrúar munum við heyra glefsur frá mismunandi tímabilum í tónsmíðaferli John Cage, þó ekki sé hægt að tala um eiginlega sneiðmynd vegna fjölbreytileika og magns tónverka. Á tónleikunum má heyra verkin Aria, Fontana Mix, Six Melodies for Violin and Piano (Keyboard), Suite for Toy Piano, And the Earth Shall Bear Again og Prelude for Meditation. Lögð verður áhersla á tónskáldið Cage enda er meirihluti verka hans fyrst og fremst konsertmúsík þó mörgum finnist verk hans teygja mörkin í ýmsar áttir.
Flytjendur eru Heiða Árnadóttir, söngkona, Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari, Tinna Þorsteinsdóttir, píanóleikari, Páll Ivan Pálsson, tónsmiður, Guðmundur Steinn Gunnarsson, tónsmiður og Jesper Pedersen, tónsmiður.

Miðvikudag 15. febrúar 2012 kl: 20:00 á Kjarvalsstöðum — Aðgangur ókeypis