Tilraunamennska sjöunda áratugarins

Tónleikar á sýningunni Ný list verður til á Kjarvalsstöðum miðvikudaginn 26. október kl: 20 – Aðgangur ókeypis.

Flytjendur eru Jaðarbershópurinn, en að þessu sinni skipa hann Freyja Gunnlaugsdóttir, klarinett, Sigurgeir Agnarsson, selló, Tinna Þorsteinsdóttir, píanó, Guðmundur Steinn Gunnarsson, tónsmiður ásamt Heiðu Árnadóttur, söngkonu, Páli Ivan Pálssyni, tónsmið og Jesper Pedersen, tónsmið

Efnisskrá:
Magnús Blöndal Jóhannsson: Frostrósir (1970) mynd- og hljóðverk með ballett eftir Ingibjörgu Björnsdóttur
Þorkell Sigurbjörnsson: Fípur (1971) rafverk
Atli Heimir Sveinsson: Mengi (1966) fyrir píanó
Nam June Paik: Dragging Suite (ártal ekki vitað)
Leifur Þórarinsson: Piece (1966) fyrir klarinett, selló og píanó
Yoko Ono: Lighting Piece (1955) og Toilet Piece (1971)
Dieter Roth: Der Akkordeon Fluch (1981-82)
Þorsteinn Hauksson: Humma? (1972) fyrir tvo sóprana og bassa

Þessum tónleikum er ætlað að endurspegla hræringar sem áttu sér stað á 7. áratug síðustu aldar á Íslandi. Verkin tengjast hópnum Musica Nova á einn eða annan hátt. Það var margt sem gerðist á stuttum tíma í upphafi 7. áratugarins. Fyrstu hreyfingarnar í raðtækni, raftónlist, óákveðni og gjörningabrellum litu dagsins ljós nánast samtímis á Íslandi. Fjölmargir tónlistarmenn komu að Musica Nova.

Á tónleikunum verða skoðuð verk frá þessum tíma eftir frumkvöðlana Magnús Blöndal Jóhannsson, Atla Heimi Sveinsson, Leif Þórarinsson og Þorkel Sigurbjörnsson.

Einnig hljómar verkið Humma? frá árinu 1972 eftir ungtónskáldið Þorstein Hauksson, sem upphaflega var flutt í Tónlistarskólanum í Reykjavík, en síðan á fyrstu UNM hátíðinni sem Íslendingar tóku þátt í árið 1974 í Svíþjóð.

Af erlendum listamönnum sem eiga verk á tónleikunum má nefna Nam June Paik, en hann olli miklum usla er hann kom fram á tónleikum Musica Nova árið 1965. Áhrif og andi Flúxushreyfingarinnar verða líka yfir vötnunum í verkum eftir Yoko Ono.

Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og í tengslum við sýninguna Ný list verður til, sem fram fer um þessar mundir á Kjarvalsstöðum og er því Musica Nova stillt upp til hliðar við Gallerí Súm og aðrar þreifingar sem áttu sér stað á þessum tíma.


Nánar um efnisskrána:

Leifur Þórarinsson (1934-1998) kom víða við á sínum tónsmíðaferli og var virkur í Musica Nova á sínum tíma. Á 7. áratugnum var tónlist hans hvað módernískust og er verkið Piece dæmi um það. Tónlist Leifs tók þó miklum breytingum og varð að sumu leyti mildari síðar meir en engu að síður innihaldsrík.

Yoko Ono (f.1933) þarf vart að kynna. Hún var lykilmanneskja í Flúxushreyfingunni alveg frá upphafi. Líkt og margir af upphafsmönnum hreyfingarinnar sótti hún námskeið John Cage í New School of Social Research í lok 6. áratugarins. Árið 1960 hóf hún að leigja húsnæði gagngert til þess að hýsa gjörninga af ýmsu tagi og varð það rými höfuðstöð Flúxushreyfingarinnar fyrstu árin. Verkin tvö eru dæmi um hugmyndir Yoko Ono frá þessum árum.

Þorsteinn Hauksson (f.1949) er talsvert yngri en hinir höfundarnir á þessum tónleikum. Verkið Humma? endurspeglar þó vel þær hræringar sem voru í gangi á 7. áratugnum þó svo að það sé samið árið 1972. Það var samið er Þorsteinn sótti svokallaða föndurtíma hjá Þorkatli Sigurbjörnssyni og er hugsanlega undir áhrifum Musica Nova hópsins.

Kóreumaðurinn Nam June Paik (1932-2006) hafði ekki hlýjar tilfinningar til Bandaríkjanna áður en hann heyrði fyrst tónlist John Cage og Morton Feldman í Darmstadt árið 1958. Sú reynsla umturnaði lífi hans og síðar fluttist hann til Bandaríkjanna og varð lykilmaður í Flúxushreyfingunni í New York. List hans þróaðist smátt og smátt frá kammertónlist yfir í gjörninga og þaðan yfir í vídjólist og er hann ekki síst þekktur sem frumkvöðull í vídjólist í dag. Dragging Music er dæmi um Nam June Paik á Flúxus árunum, gæti verið frá þeim tíma sem hann heimsótti Ísland.

Dieter Roth (1930-1998) tengdist Íslandi sterkum böndum, fyrst í gegnum eiginkonu sína Sigríði Björnsdóttur. Hann hafði mikil áhrif á íslenskt listalíf eins og mörgum er kunnugt. Listiðkun hans teygði sig í ýmsar áttir og það kom fyrir að hann færði sig yfir í hljóð og tónlist einhvers konar. M.a. í Íslandssinfóníunni sem hann gerði með Hermann Nitsch. Hljómabölvunina samdi hann hins vegar einn.

Þorkell Sigurbjörnsson (f.1938) er eitt afkastamesta tónskáld Íslands. Hann og Magnús Blöndal voru fyrstu Íslendingarnir til þess að leggja stund á raftónlist. Eftir nám í Bandaríkjunum kom hann með ýmsa nýja strauma til Íslands og var mjög virkur innan Musica Nova.

Atli Heimir Sveinsson (f.1938) varð strax mjög virkur í íslensku tónlistarlífi eftir að hann kom úr námi í Þýskalandi 1963. Mörg hans verka voru flutt á tónleikum Musica Nova og stóð hann fyrir komu margra erlendra listamanna til Íslands. Þar á meðal var umdeilt þegar Nam June Paik hélt hér tónleika árið 1965. Atli stóð í ströngu og ritaði greinar um nýja tónlist og lenti oft á milli tannanna á fólki á 7. áratugnum.

Magnús Blöndal Jóhannsson (1925-2005) er án efa einn mesti frumkvöðull Íslandssögunnar. Hann bar ábyrgð á fyrstu íslensku tónlistinni gerðri með raðtækni og gerði hreint ótrúlega hluti í raftónlist á Íslandi á 6. áratugnum með mjög svo takmarkaðan tækjabúnað Ríkisútvarpsins á þessum tíma. Frostrósir er ein af mörgum sönnunum fyrir ótrúlegri hugmyndaauðgi og færni Magnúsar.

GSG